Kvikmyndafyrirtækið Sony Pictures áætlar að sýna gamanmyndina The Interview frítt á vefsíðunni Crackle.com, en síðan er í eigu fyrirtækisins. New York Post greinir frá þessu.
The Interview skartar þeim James Franco og Seth Rogen í aðalhlutverkum og hefur verið mikið í sviðsljósinu síðustu vikur sökum þess að yfirvöld í Norður-Kóreu hafa hótað öllu illu ef myndin yrði sýnd, t.a.m. hafa þau hótað að sprengja upp þau kvikmyndahús sem myndin yrði sýnd í. Sony ákvað eftir þær hótanir að hætta við sýningar á myndinni og hefur tekið á það ráð að sýna hana frekar á netinu.
Myndin fjallar um viðtalsþáttastjórnandann Dave Skylark (Franco) og framleiðandann Aaron Rapoport (Rogen), en þeir fá þann „heiður“ að fara til Norður-Kóreu til þess að taka viðtal við sjálfan einræðisherrann, Kim Jong-Un. Bandaríska leyniþjónustan hefur samband við þá í kjölfarið og biður þá um að ráða hann af dögum, en leyniþjónustan hefur engan grun um það hversu félagarnir eru óhæfir í verkið.