The Hobbit: An Unexpected Journey verður heimsfrumsýnd í Wellington í Nýja Sjálandi á morgun, miðvikudag, að því er segir á vef Sky sjónvarpsstöðvarinnar bresku.
Búist er við um 100.000 manns á staðinn til að berja augum aðalleikarana þá Martin Freeman, sem leikur Bilbo Baggins, Hugo Weaving, Cate Blanchett og Elijah Wood.
Myndirnar um Hobbitann, sem verða alls þrjár að tölu, eru byggðar á bók JRR Tolkien og segja forsöguna að The Lord Of the Rings, eða Hringadróttinssögu. Peter Jackson, leikstjóri Hobbitans, fékk einmitt þrenn Óskarsverðlaun fyrir Hringadróttinssögu þríleikinn fyrir um 10 árum síðan.
Hobbitinn gerist 60 árum áður en Hringadróttinssaga gerist. Upphaflega átti að gera tvær myndir, eða þar til framleiðendur sáu að þeir höfðu efni í þrjár myndir.