Hnefaleikameistaranum og leikaranum Mike Tyson verður breytt í teiknimyndapersónu innan skamms. Persónan er rannsóknarlögreglumaður með dúfu sem aðstoðarmann, en eins og flestir ættu að vita hefur Tyson ræktað bréfadúfur um langt árabil.
Tyson sjálfur mun tala fyrir persónuna, sem mun verða skreytt með töfrandi andlitshúðflúri. Þættirnir, sem heita Mike Tyson Mysteries, munu verða sýndir á Adult Swim sjónvarpsstöðinni næsta vetur.
„Með töfrandi tattú á andlitinu og traustan aðstoðarmann við hlið sér – talandi dúfu – ef þú þarft að láta leysa eitthvað vandamál, þá er Iron Mike til þjónustu reiðubúinn,“ sagði sjónvarpsstöðin í tilkynningu.
Þættirnir verða sýndir einu sinni í viku og verða 15 mínútna langir hver þáttur. Warner Brothers Animation býr þættina til.
Þetta er reyndar ekki í fyrsta skiptið sem Mike Tyson verður að teiknimyndasöguhetju. Hann var fyrirmyndin að The Simpson persónunni Drederick Tatum, sem hefur komið fram í nokkrum Simpson þáttum.
Síðan Tyson, sem er 46 ára, hætti að boxa hefur hann leikið í nokkrum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.
Hann lék í The Hangover, hnefaleikamyndinni Rocky Balboa og sjónvarpsþáttunum How I Met Your Mother.
Tyson er yngsti maðurinn til að vinna heimsmeistaratitil í hnefaleikum, en hann var aðeins 20 ára þegar hann vann titilinn fyrst, en í framhaldinu vann hann allar mögulegar útgáfur af heimsmeistaratitlinum sem til eru.
Í einkalífinu hefur Tyson verið umdeildur. Árið 1992 var hann settur í fangelsi eftir að hann var dæmdur fyrir nauðgun, og í bardaga árið 1997, beit hann bút úr eyranu á Evander Holyfield þegar þeir áttust við í hringnum.