Svo mikið er víst að lífið hjá Katniss Everdeen, aðalpersónu í The Hunger Games, sem leikin er af Jennifer Lawrence, verður ekkert einfaldara eða léttara í mynd númer 2, The Hunger Games: Catching Fire, sem væntanleg er í haust.
Ný ljósmynd úr Catching Fire sem sýnir Katniss þar sem hún faðmar litlu systur sína Primrose, sem leikin er af Willow Shields, sannar það, enda má sjá á myndinni að stríðið hefur tekið sinn toll af Katniss, samanber ör á kinn, og ljóst er að eitthvað hefur gerst sem krefst þess að stóra systir þarf að hugga litlu systur.
Þegar við skildum við Primrose við uppskeruna ( the reaping ) í fyrstu myndinni, þar sem þátttakendur í hungurleikunum voru valdir, þá slapp Primrose við að fara í hina lífshættulegu og mjög svo blóðugu Hungurleika, þegar Katniss bauðst til að fara í hennar stað.
Í mynd númer tvö er Primrose enn í hættu þegar Katniss snýr aftur til svæðis 12 ( District 12 ) og kastljós the Capitol fellur á þorpið þeirra.
Þær systur, Primrose og Katniss, eru ólíkar. Primrose er ekki eins hugrökk og Katniss, en hefur hæfileika sem græðari, en þær mynda kjarnann í samheldinni fjölskyldu. Þegar lífi þeirrar yngri er ógnað, þá mætir sú eldri með boga og örvar henni til varnar.
The Hunger Games: Catching Fire hefst eftir að Katniss Everdeen kemur heim til sín eftir að hafa unnið 74. árlegu Hungurleikana ( Hunger Games ), ásamt félaga sínum Peeta Mellar. Sigur þýðir að þau verða núna að fara í sigurferð um landsvæðin ( districts ) og skilja vini sína og fjölskyldur eftir heima. Í ferðinni skynjar Katniss að uppreisn er í aðsigi, en The Capitol stendur samt traustum fótum og Snow forseti er að undirbúa 75. árlegu Hungurleikana ( The Quarter Quell ) – sem er keppni sem getur breytt landinu Panem til framtíðar.
Leikstjóri myndarinnar er Francis Lawrence og aðrir leikarar eru m.a. : Elizabeth Banks, Woody Harrelson, Philip Seymour Hoffman, Sam Claflin, Lenny Kravitz, Stanley Tucci, Jenna Malone, Liam Hemsworth og Toby Jones.
Myndin er væntanleg í bíó í nóvember á þessu ári.