Sýnir fjölbreytnina í franskri kvikmyndagerð

Frönsk kvikmyndahátíð hefst á föstudaginn næsta, 27. janúar, en hún er samstarfsverkefni franska sendiráðsins, Alliance française í Reykjavík, Háskólabíós, Institut français og kanadíska sendiráðsins.

Hátíðin fer fram í Háskólabíói og stendur dagana 27. janúar – 10. febrúar í Reykjavík og 28. janúar – 3. febrúar á Akureyri.

21-night

Myndirnar á hátíðinni verða 11 talsins, 10 franskar og ein kanadísk. Í tilkynningu frá hátíðinni segir að fjölbreytnin sé í fyrirrúmi og allir ættu að finna mynd við sitt hæfi. Þá er einnig að finna teiknimynd fyrir börnin. Flestar myndirnar eru með enskum texta, nema teiknimyndin Huldudrengurinn sem er með íslenskum texta. Einnig eru myndirnar Hún og Stór í sniðum með íslenskum texta.

Jean-François Rochard, forstöðumaður Alliance française, þekkir til kvikmyndanna enda tók hann þátt í að velja þær. Hann segir í samtali við Morgunblaðið í dag að úrval kvikmynda sé gott og að reynt hafi verið að velja myndir sem tilheyri ólíkum flokkum, þ.e. gamanmyndir, dramatískar, spennumyndir, rómantískar og þar fram eftir götunum og svo eina fyrir börn og foreldra, teiknimyndina Phantom Boy. „Ég held að með valinu í ár takist okkur að sýna fjölbreytnina í franskri kvikmyndagerð síðastliðin tvö ár,“ segir Rochard við Morgunblaðið, og bætir við að myndirnar hafi notið góðrar aðsóknar í Frakklandi og fleiri löndum, hlotið jákvæðar viðtökur gagnrýnenda og sumar hverjar verðlaun, m.a. Elle sem valin var á kvikmyndahátíðina í Cannes í fyrra og er framlag Frakklands til Óskarsverðlaunanna í ár.

Opnunarmynd hátíðarinnar er nýjasta kvikmynd Pauls Verhoevens, fyrrnefnd Elle eða Hún (2016). Myndin er sálfræðitryllir af bestu gerð. Aðalleikkona myndarinnar, Isabelle Huppert fer afar vel með hlutverk sitt í myndinni og hefur nú þegar hlotið fern verðlaun fyrir leik sinn, meðal annars Gotham verðlaunin í New York.

Hægt er að lesa um allar myndirnar á kvikmyndir.is og sjá stiklur úr myndunum.