Syngjandi krókódíll sem elskar bað og kavíar

Fjölskyldumyndin Kalli káti krókódíll , sem kemur í bíó í dag, er byggð á metsölu-barnabókaflokki eftir Bernard Waber. Á frummálinu heitir Kalli Lyle og myndin er tónlistargamanleikur sem færir krókódílinn indæla til ungra áhorfenda um allan heim.

Erfitt að aðlagast nýju aðstæðum

Þegar Primm-fjölskyldan flytur til New York-borgar á ungur sonur Primm-hjónanna erfitt með að aðlagast nýjum aðstæðum, nýjum skóla og nýjum vinum. Þetta breytist allt í einu vetfangi þegar hann uppgötvar Kalla, syngjandi krókódíl sem elskar að fara í bað, borða kavíar og hlusta tónlist.

Kalli býr uppi á háalofti á nýja heimili Primmfjölskyldunnar. Josh og Kalli verða strax bestu vinir en þegar illur nágranni, Mr. Grumps, ógnar tilveru Kalla verður Primm-fjölskyldan að snúa saman bökum með Kalla og eiganda hans, Hector P. Valenti til að sýna heiminum að fjölskyldur geta komið frá ólíklegustu stöðum og ekkert mælir gegn syngjandi krókódíl með risastóran persónuleika.

Jón Jónsson syngur í íslensku útgáfunni

Í Kalla káta krókódíl eru ný lög sem Shawn Mendes flytur, samin af teyminu sem var á bak við The Greatest Showman, Í íslensku útgáfunni er það enginn annar en Jón Jónsson sem syngur! Javier Bardem, Constance Wu, Winslow Fegley, Scott McNairy og Brett Gelman leika aðalhlutverkin, auk þess sem Shawn Mendes ljær Kalla rödd sína í ensku útgáfu myndarinnar. Í íslensku myndinni er það einvalalið leikara sem sér um tal og söng.

Aðalhlutverk: Jón Jónsson, Þór Breiðfjörð, Brandur Óli Gíslason, Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, Rúnar Freyr Gíslason, Guðjón Davíð Karlsson og Þórunn Jenný Q. Guðmundsdóttir

Handrit: Will Davies, byggt á bók Bernard Waber Leikstjórn: Will Speck og Josh Gordon

Fróðleikur:

-Fyrsta bókin um Kalla káta krókódíl kom út árið 1965.

-Árið 1987 gerði HBO teiknimynd um Kalla káta krókódíl. Það var líka tónlistargamanleikur.