Svona voru konur lokkaðar á Aquaman

Rétt eins og framleiðslufyrirtækinu Warner Bros. tókst að lokka konur í bíó þegar ofurhetjumyndin Wonder Woman var frumsýnd, þá hefur fyrirtækið nú endurtekið leikinn með nýjustu ofurhetjumyndinni Aquaman, en á annan hátt þó. Frá þessu er sagt á kvikmyndavefnum Deadline.

Með Wonder Woman þá fengu kvenkyns bíógestir loksins ofurhetju sem þeir gátu samsamað sig með, eins og það er orðað á Deadline, en Wonder Woman stóð fyrir kvenfrelsi, kraft og styrk. En þegar kom að því að lokka sömu gesti á Aquaman var það kynþokkinn sem var helsti galdurinn, þ.e. kynþokki aðalleikarans Jason Momoa, auk allrar rómantíkurinnar og móðurlegu tilvísananna í kringum persónu Nicole Kidman, Atlanna.

Og hernaðaráætlunin hefur svínvirkað. Tekjur Aquaman á fyrstu fimm dögum í sýningum í Bandaríkjunum námu tæpum 106 milljónum bandaríkjadala, og konur yfir 25 ára gáfu myndinni 84% einkunn á ComScore/Screen Engine mælinum, en hann getur spáð fyrir um aðsókn fram í tímann.

Mæður voru fjölmennari í bíó en pabbar, eða 56% á móti 44%, og þær skemmtu sér betur, eða 91% á móti 85%. Konur gáfu myndinni einnig A- CinemaScore, sem var svipað og karlar gerðu.

Eitt af því sem vakti hvað mesta athygli markaðslega fyrir Aquaman var þegar Jason Momoa framkvæmdi Haka dansinn, sem er hefðbundinn Māori dans, á rauða dreglinum við frumsýningu myndarinnar í Hollywood. Samfélagsmiðlamælirinn RelishMix segir að dansinn hafi verið það sem fullkomnaði markaðssetninguna.

Samtals er Aquaman með um hálfan milljarð fylgjenda á öllum samfélagsmiðlum til samans, YouTube, Instagram, Facebook og Twitter, og eins og segir á Deadline kom sá fjöldi allur til af sjálfu sér ( organic ), og naut ekki fulltingis annarra DC comics ofurhetjumynda, eins og Wonder Woman og Justice League.

ua

Eitt sem Warner Bros gerði líka var að búa til myllumerkið #MOMSFORMOMOA, þegar markaðsdeildin sá hvað mæður flykktust inn á samfélagsmiðla í stórum stíl til að skoða Aquaman og Momoa. Warner Bros. sá að mæður vildu taka börnin sín með sér á myndina sem afsökun til að sjá Momoa í fullum hertygjum.

Annað trix sem notað var til að laða kvenfólk á myndina var að Nicole Kidman setti í gang „Aquamom“ á samfélagsmiðlum. Kidman er með mun fleiri fylgjendur en Momoa á þessum miðlum, en hún er t.d. með 13,4 milljónir fylgjenda á Instagram og Facebook. Þar hefur Kidman enda verið dugleg að kynna myndina.

Hér má lesa ítarlegri grein um markaðsmálin í kringum Aquaman.