Svartir Sunnudagar snúa aftur í vetur með tvöfaldar sýningar en þeir hefja leikinn sunnudaginn 12. október, en þá verða Barbarella og Danger: Diabolik á dagskrá. Þeir Hugleikur Dagsson og Sigurjónarnir tveir, Kjartansson og Sigurðsson (Sjón) stofnuðu kult og klassík hópinn Svarta sunnudaga, munu standa fyrir kvikmyndasýningum í Bíó Paradís í vetur. Síðasti vetur gekk vonum framar, þar sem fjöldinn allur mætti á mjög fjölbreytta og beitta dagskrá sem í boði var.
Dagskráin er með örlitlu breyttu sniði í vetur en Svartir Sunnudagar hefja leikinn þann 12. október með tvöfaldri sýningu og eru annars fyrsta sunnudag hvers mánaðar með tvöfalda sýningu kl 20:00 og kl 22:00, auk tvöfaldrar jólasýningar þann 26. desember og tvöfaldrar lokasýningar sem jafnframt verður plakatasölusýning vorið 2015. Fyrir hverja tvöfalda sýningu sjá nýir listamenn um plakatahönnun Svartra Sunnudaga, og er sölusýning þeirra plakata síðastliðins veturs aðgengileg í innra rými Bíó Paradís. Fyrir þeim félögum vakir að auðga bíómenningu borgarinnar og njóta lífsgæðanna sem felast í því að klassískar kult myndir séu sýndar í reykvískum bíósal – með tvöföldum sýningum í hvert sinn.