Fyrsta plakatið fyrir nýjustu kvikmynd Quentin Tarantinos, Django Unchained, hefur nú verið birt á netinu og veitir okkur vægan ilm af því sem koma skal. Ekkert rosalegt en samt sem áður áhugavert. Það minnir mjög mikið á Spaghetti-vestra, en þetta er í raun myndin sem Tarantino er búinn að vera að móta í anda alveg síðan hann hóf feril sinn því allar myndirnar hans eru vanalega innblásnar af vestrum sem þessum á einhvern hátt.
Django Unchained fjallar um þrælinn Django (Jamie Fox) sem er frelsaður af þýska hausaveiðaranum Dr. King Schultz (Christoph Watlz) sem er í leit að fyrrverandi eigendum Djangos. Eftir að þeirri leit líkur ákveður Schultz að hjálpa Django að elta uppi eiginkonu hans, Broomhildu (Kerry Washington), og frelsa hana frá hrottafengna auðkýfingnum Calvin Candie (Leonardo DiCaprio) með því að þjálfa kappann í listinni að verða hausaveðari.
Undirritaður hefur lesið handrit myndarinnar og fullvissa ég ykkur um að þetta verður í það minnsta fáránlega skemmtileg kvikmynd, full af áhugaverðum persónum og Tarantino-samtölum sem við erum svo hrifin af. Það er þétt, spennandi, einlægt og hreinlega ómótstæðilegt.
Nýlega sagði einn leikarinn, Joseph Gordon-Levitt, sig úr myndinni vegna þess að hann var skuldbundinn við annað verkefni sem hann hafði virkari þátt í, en þennan vestra vantar varla fleiri stórleikara- hún er gjörsamlega troðin af hæfileikaríku fólki fyrir framan og aftan myndavélarnar.
Til að auka spenninginn fyrir myndinni, þá langar mig að deila nokkrum staðreyndum um myndina:
-Þetta er í fyrsta sinn sem DiCaprio leikur alvörunni illmenni.
-Þið eigið eftir að elska Christoph Waltz ennþá meira eftir þessa mynd.
-Tarantino lýsir myndinni sem „Southern“ frekar en „Western“ vegna þess að myndin gerist í harðsoðna suðurhluta bandaríkjanna á tímum gamla vestursins.
-Tarantino leigði bíó á meðan tökur fóru fram í Wyoming til að sýna Samurai-myndir og vestra úr safninu sínu.
-Schultz og Django munu líklegast komast á marga lista yfir bestu félagateymi allra tíma eftir að ræman lítur dagsins ljós.
-Hún á líklega eftir að valda miklu fjaðrafoki fyrir innihald sitt.
Eru lesendur spenntir yfir því að sjá nýja Tarantino-ræmu, sérstaklega eftir hina stórgóðu Inglorious Basterds? Hver er uppáhalds Tarantino-myndin ykkar?