Hinir árlegu Stuttmyndadagar í Reykjavík fara fram í Bíó Paradís dagana 15.-16. júní næstkomandi. Keppt er um bestu stuttmyndina og verða veitt þrenn verðlaun fyrir bestu myndirnar, 100.000 kr. fyrir fyrsta sætið, 75.000 kr. fyrir annað sætið og 50.000 kr. fyrir þriðja sætið. Frestur til að skila inn myndum rennur út þann 24. maí en nánari upplýsingar er hægt að nálgast hér.
Í dómnefnd Stuttmyndadaga eru eftirtaldir: Guðrún Edda Þórhannesdóttir framleiðandi, Hálfdán Pedersen leikmyndahönnuður og Lars Emil Árnason handritshöfundur og leikstjóri.
Líkt og venja er munu áhorfendaverðlaun verða veitt sérstaklega. Auk þess mun Sjónvarpið sýna þær myndir sem hljóta áðurnefnd verðlaun. Þá verður leikstjóra þeirrar myndar sem hlýtur fyrsta sætið, boðið á Kvikmyndahátíðina í Cannes að ári þar sem myndin tekur þátt í hinu svokallaða Short Film Corner.
Sérstök athygli er vakin á því að myndir megi ekki fara yfir 15 mínútur að lengd. Þá verða innsendar myndir að notast við Íslendinga í lykilstörfum og/eða hlutverkum.
Í fréttatilkynningu frá Bíó Paradís segir að Stuttmyndadagar hafi verið grasrótarvettvangur íslenskra kvikmynda allt frá 1991. Þar hafi fjölmargir kvikmyndagerðarmenn, sem síðar hafa getið sér gott orð, stigið sín fyrstu spor. Megi þar m.a. nefna Árna Óla Ásgeirsson, Maríu Sólrúnu Sigurðardóttur, Rúnar Rúnarsson, Ragnar Bragason, Róbert Douglas, Grím Hákonarson, Reyni Lyngdal og Gunnar B. Guðmundsson.
Umsjón með Stuttmyndadögum 2011 er í höndum Bíó Paradísar