Kvikmyndasíðan Movieweb greinir frá því að framhald verði gert af hrollvekjunni The Boy frá árinu 2016. Myndin fjallaði um mjög óhugnanlega dúkku sem líktist óþægilega mikið lifandi strák.
Í framhaldsmyndinni mun engin önnur en Hollywoodstjarnan Katie Holmes ( Logan Lucky ) fara með aðalhlutverk. The Walking Dead leikkonan Lauren Cohan lék aðalhlutverkið í upprunalegu myndinni.
Í framhaldinu verður sögð ný saga með nýjum persónum, en dúkkan miður geðslega mun að sjálfsögðu skjóta aftur upp kollinum.
Sagt verður frá fjölskyldu sem flytur inn í nýtt hús, óafvitandi um draugalega fortíð hússins. Katie Holmes leikur Liza. Sonur hennar verður vinur hinnar fyrrnefndu óhugnanlegu brúðu sem kallast Brahms, stuttu eftir að þau flytja inn í þetta nýja heimili. Og þá hefst hryllingurinn.
Holmes er enginn nýgræðingur er kemur að hrollvekjum, en hún lék til dæmis í hrollvekjunni Don´t Be Afraid of the Dark frá árinu 2010. Þá lék hún í unglingahrollinum Disturbing Behavior snemma á ferlinum.
William Brent Bell snýr aftur í leikstjórastólinn í The Boy 2 eftir velgengni fyrstu myndarinnar, en tekjur hennar námu 64 milljónum bandaríkjadala um allan heim, en kostnaður var einungis 10 milljónir dala. Bell leikstýrði einnig hrollinum The Devil Inside.
Handritið kemur úr penna Stacey Menear, sem einnig skrifaði fyrri myndina.
Söguþráður fyrri myndarinnar er eftirfarandi: Greta er bandarísk kona sem flýr erfiða fortíð. Hún tekur að sér að passa 8 ára son auðugra foreldra á Englandi, á meðan hjónin fara í langt frí. Þegar hún kemur að afviknu heimilinu þá kemst hún að því að eitthvað skrýtið er á seiði. Það er ekki bara að hjónin láta Greta fá langan lista af leiðbeiningum með stráknum heldur er sonurinn Brahms, ekki raunverulegur strákur, heldur postulínsdúkka í fullri stærð! Hjónin fara í fríið og Greta er nú ein og yfirgefin með Brahms. Í hvert skipti sem hún fer ekki eftir leiðbeiningunum gerist eitthvað skrýtið. Hún kynnist manni sem ber út nýlenduvörurnar, Malcolm, sem segir henni frá hræðilegum hlutum sem gerðust hjá Heelshire fjölskyldunni, og Greta kemst að því að hún var í raun ekki bara ráðin, heldur sérvalin til starfans … ..