Leikstjóradúóið Phil Lord og Chris Miller hafa risið hratt upp á stjörnuhiminninn í Hollywood. Fyrsta stórmynd þeirra var teiknimyndin Cloudy With A Chance of Meatballs sem vakti ágæta lukku meðal áhorfenda og fékk fínustu dóma. Næsta mynd þeirra félaga var 21 Jump Street sem er ein af fáum myndum sem hafa virkilega komið á óvart í ár. Nú er ljóst að dúóið ætlar að troða sér í leikstjórastólinn í þriðja sinn.
Myndin sem um ræðir ber nafnið Carter Beats the Devil og gerist á 3.áratug síðustu aldar. Hún fjallar um töframanninn Carter sem er fenginn til þess að búa til risastóra sjónbrellu fyrir forseta Bandaríkjanna, Warren G. Harding. Þegar Harding deyr fljótlega eftir brelluna neyðist Carter að hreinsa nafn sitt með öllum tiltækum ráðum.
Myndin hefur verið á flakki í Hollywood í talsverðan tíma og meðal annars hafa Tom Cruise og Johnny Depp verið nefndir sem mögulegir aðalleikarar myndarinnar áður en Lord og Miller ákváðu að taka myndina að sér.
Djöfull líst mér vel á þetta! Þetta eru afar hæfileikaríkir leikstjórar og söguþráður galdramyndarinnar er mjög áhugaverður. Ég er líka spenntur yfir því hver verður fenginn sem aðalleikari myndarinnar, ef það er ekki karakterhlutverk þá veit ég ekki hvað.