Walt Disney kvikmyndaverið birti í dag fyrsta plakatið fyrir mynd sem margir bíða spenntir eftir, The BFG, sem gerð er eftir sögu Roald Dahl. Myndin er væntanleg á hvíta tjaldið 1. júlí nk. í leikstjórn Steven Spielberg sem nú er að leikstýra fyrir Disney í fyrsta skipti.
Íslenski leikarinn Ólafur Darri Ólafsson leikur einmitt risa í myndinni, eins og kom m.a. fram á vísir.is á síðasta ári.
Myndin segir frá BFG sem fer með hina 10 ára gömlu Sophie til Risalands, þar sem hann sýnir henni Draumalandið, staðinn þar sem hann safnar saman töfradraumum sem rata svo inn í huga krakka á meðan þeir sofa.
Eins og má sjá á plakatinu þá er Sophie, sem Ruby Barnhill leikur, þar standandi á fæti BFG, og starir upp á risann, sem er meira en sjö metra hár.
En þegar aðrir risar, ekki eins vinsamlegir, frétta af komu Sophie, þá verða þeir allt annað en ánægðir. Sophie og nýi besti vinur hennar þurfa nú að finna drottninguna til að fá hjálp við að koma aftur á friði í Risalandi, og í heiminum öllum.
Áhorfendur geta átt von á góðu enda hafa verið gerðar vel heppnaðar myndir áður eftir sögum Dahl, sögum eins og Charlie and the Chocolate Factory, James and the Giant Peach, Matilda og fleiri.