Cecilia (Elisabeth Moss) flýr frá ofbeldisfullum eiginmanni sínum Adrian (Oliver Jackson-Cohen). Dauðhrædd um að hann muni elta hana uppi þá leitar hún í húsaskjól hjá vini sínum, lögreglumanninum James (Aldis Hodge). Fljótlega berast henni þau tíðindi að Adrian hafi framið sjálfsmorð og erft hana að umtalsverðum fjármunum. Ekki líður á löngu þar til hana grunar að Adrian hafi sett dauða sinn á svið. Cecilia verður svo fullviss um að Adrian geti gert sig ósýnilegan og haldi áfram að kvelja hana.
Einföld spennumynd
„The Invisible Man“ er afar einföld spennumynd sem hefur ekki upp á mikið að bjóða annað en langar útdregnar senur þar sem Cecilia stigmagnast í hræðslu sinni og vissu um að hennar fyrrverandi leynist einhvers staðar í skúmaskoti og bíði þess að ráðast að henni. Vissulega flækist plottið aðeins á endasprettinum en þá vakna ýmsar spurningar sem erfitt er að finna svörin við og því best að rýna ekki of mikið í handritið.
Leikstjórinn og handritshöfundurinn Leigh Whannell („Upgrade“ og „Insidious: Chapter 3“) gerir það rétta í stöðunni og leggur aðaláhersluna á að skapa drungalega stemningu sem hann svo reynir að halda út allan tímann. Tónninn er vel settur í hreint mögnuðu byrjunaratriði sem sýnir frá flóttatilraun Ceciliu frá sofandi eiginmanni sínum um miðja nótt. Langa atriðið byggir sig vel upp og drungaleg notkun hljóðs og klippinga framkalla magnaða stemningu sem heldur áhorfandanum á sætisbrúninni. Það er svo ekki séns að viðhalda þessu spennustigi allt til loka og „The Invisible Man“ verður helst til of endurtekningarsöm og fyrirsjáanleg þegar fram líður.
Hvílir á herðum Moss
Myndin hvílir nánast eingöngu á herðum Moss og hún stendur sig fantavel enda orðin vel sjóuð í að leika konur sem sæta mikilli valdníðslu. Helsti óhugnaðurinn sem „The Invisible Man“ nær að koma til skila er þessi stöðugi ótti sem Cecilia býr við og þrátt fyrir að umfjöllunarefnið snúist um ósýnilegan mann er þetta mynd sem gerir út á ótta sem er mjög svo raunverulegur og áþreifanlegur. Að þessu leyti gerir Whannell (og sérstaklega Moss) vel en hann teygir þunnan efniviðinn of mikið og fellur í þá gryfju að gera meira þegar minna hefði verið meira en nóg.
Hugmyndin að baki ósýnilega manninum teygir sig allt til 1933 og þá var hann í fríðum hópi föruneytis sem innihélt Frankenstein, Úlfamanninn, Drakúla, Múmíuna og Fyrirbærið úr svarta lóninu. Þessi hópur myndaði Universal skrímslin og gaman að sjá að gömlu óvættirnir eru enn að í einhverri mynd en ósýnilegi maðurinn hefur verið vel uppfærður fyrir nútímann. Einfaldleikinn ræður ríkjum hér (enda var myndin mjög ódýr í framleiðslu eða um 7 milljónir bandaríkjadala) og hugmyndin að baki myndinni, og útfærslan, heppnast frekar vel en hún hefði getað verið betri. Myndin er þó stemningsrík afþreying þegar uppi er staðið.
Oddur Björn Tryggvason