Star Wars unnendur um allan heim fá tækifæri til að taka þátt í gleðinni síðar í kvöld þegar nýjasta Star Wars myndin, Rogue One: A Star Wars Story, verður frumsýnd við hátíðlega athöfn í Los Angeles. Walt Disney fyrirtækið, eigandi Star Wars, segir í tilkynningu að frumsýningarathöfn myndarinnar verði streymt í beinni útsendingu á StarWars.com, og hefst útsendingin kl. 20 að staðartíma, eða klukkan eitt eftir miðnætti að íslenskum tíma.
„Boðið verður upp á viðtöl við leikara og kvikmyndagerðarfólk, og menn fá að fylgjast með því þegar aðstandendur myndarinnar koma á rauða dregilinn,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Leikstjóri myndarinnar er Gareth Edwards. Myndin fjallar um ævintýri Jyn, sem Felicity Jones leikur, og Cassian Andor, sem Diego Luna leikur. Auk þeirra leika stór hlutverk í myndinni þeir Mads Mikkelsen, Alan Tudyk og Forest Whitaker.
Opinber frumsýningardagur myndarinnar hér á landi og í Bandaríkjunum er 16. desember nk. Rogue One gerist nokkru eftir atburðina í Star Wars: Episode III – Revenge of the Sith, og fyrir atburðina í fyrstu Star Wars myndinni, Star Wars: Episode IV: A New Hope.