Sylvester Stallone er á miklu flugi um þessar mundir og myndir eins og hasarbomban Expendables 3, fangamyndin The Tomb, boxmyndin Grudge Match og lögguspennan Bullet to the Head, eru allar væntanlegar.
Stallone fann þó tíma til að leika í myndinni Reach Me, sem er sjálfstæð framleiðsla frá leikstjóranum John Herzfeld, sem hefur gert myndir eins og Two Days in The Valley, 15 Minutes og The Life and Death Of Bobby Z.
Stallone og Herzfeld hafa verið vinir síðan árið 1986 þegar Herzfeld lék Cho í hinni sígildu Stallone mynd Cobra.
Nýlega leikstýrði Herzfeld einnig 90 mínútna heimildamynd um gerð myndarinnar Expendables, fyrir DVD.
Reach Me er um hóp af fólki sem allt hefur tengsl við sjálfshjálparbók sem fyrrum fótboltaþjálfari og nú einsetumaður, skrifaði.
Með Stallone í Reach Me eru eðalleikararnir Danny Aiello, Ving Rhames, Elizabeth Henstridge, Omari Hardwick, og rapparinn Nelly.
Engar upplýsingar liggja fyrir um frumsýningardag.