Stærsta kvikmynd Finnlandssögunnar

Finnska kvikmyndin Tuntematon Sotilas, eða Óþekkti hermaðurinn, verður frumsýnd í Bíó Paradís þann 25. janúar. Íslensku framleiðendurinir Ingvar Þórðarsson og Júlíus Kemp eru meðframleiðendur myndarinnar og fer myndin í almennar sýningar í Bíó Paradís að frumsýningu lokinni.

Myndin gerist á þeim tíma sem Finnar kalla Framhaldsstríðið, eða frá 1941-44. Sögusviðið eru stríðsátökin á milli Finnlands og Sovétríkjanna og byggir á samnefndri skáldsögu Väinö Linna. Þetta er fjölpersónusaga sem lýsir mörgum ólíkum einstaklingum innan tiltekinnar herdeildar, allt frá herkvaðningu til vopnahlés.

Óþekkti hermaðurinn er stærsta kvikmynd Finnlandssögunnar og hefur slegið öll aðsóknarmet þar í landi sem og á Norðurlöndum.