Spacey ráðinn í nýja mynd: „Ég get ekki beðið eftir að hefja tökur“

Bandaríski leikarinn Kevin Spacey hefur verið ráðinn í ítölsku kvikmyndina L’uomo Che Disegno Dio (e. The Man Who Drew God) eftir hinn góðkunna Franco Nero. Þetta mun vera fyrsta hlutverk Spaceys í fjögur ár en hann hefur lítið verið í sviðsljósinu eftir að hafa verið sakaður um kyn­ferðis­lega áreitni af fjöl­mörg­um aðilum.

Í kjölfar þessara ásakana var Spacey t.a.m. klipptur út úr All the Money in the World frá Ridley Scott. Spacey lék þar olíufurstann J. Paul Getty en á síðustu stundu var Christopher Plummer fenginn í hans stað og lék hann helstu senur upp á nýtt. 

Þá var Spacey einnig rekinn úr sjónvarpsþáttunum House of Cards og var sjötta og síðasta þáttaröðin í miklu uppnámi á tímabili. Það vakti því mikla athygli þegar hann gaf út þrjú umdeild myndbönd á YouTube síðu sinni árin 2018, 2019 og 2020. Í fyrstu tveimur skaut hann upp kollinum með óvenjulegri jólakveðju í gervi persónunnar Frank Underwood, en í því síðasta ræðir hann um sjálfsvíg á tímum faraldursins.

Það er óhætt að segja að fáir hafi búist við endurkomu leikarans á hvíta tjaldið.

Franco Nero

Áætlað er að tökur L’uomo Che Disegno Dio fari fram á Ítalíu á næstunni og er leikarinn Nero (oft kenndur við hinn upprunalega Django) við stjórnvölinn. Spacey fer með aukahlutverk í myndinni og herma heimildir að hann bregði sér í rullu spæjara sem fenginn er til að rannsaka alvarlegt kynferðisbrot í atburðarás myndarinnar. Á meðal helstu leikenda eru Vanessa Redgrave, eiginkona leikstjórans, ásamt Stefaniu Rocca, Robert Davi, Massimo Ranieri, Alissiu Alciati og leikstjóranum sjálfum.

Nero staðfesti sjálfur ráðningu Spaceys í samtali við fréttaveitu ABC og sagðist vera þrælspenntur fyrir samstarfinu við Spacey: „Ég álít hann vera stórkostlegan leikara og ég get ekki beðið eftir að hefja tökur,“ sagði Nero við miðilinn.

 „Ég er afar heppinn að hann hafi samþykkt þetta boð um að vera með í myndinni minni.“