Vin Diesel, einn af aðalleikurum Fast & Furious kvikmyndaseríunnar vinsælu, virðist vilja fá persónuna sem Paul Walker lék, aftur inn í seríuna, en Paul Walker lést með sviplegum hætti í nóvember árið 2013, í stuttu hléi frá tökum Fast 7.
Framleiðendur brugðust við andláti hans með því að endurskrifa handritið og löggan fyrrverandi, Brian O´Connor, sem Walker lék, fékk góðan endi, og hægt var að klára myndina með ákveðnum tæknibrellum og með því að nota bræður leikarans, þá Cody og Caleb Walker, í stað hans.
Flestir hafa væntanlega búist við því að þetta yrði það síðasta sem áhorfendur fengju að sjá af Brion O´Connor, en þeir Cody og Caleb segja í samtali við Entertainment Tonight, að persónan gæti jafnvel komið við sögu á ný.
„Ég talaði við Vin [Diesel] í um klukkutíma í síma, og við ræddum þetta fram og aftur. Hann vildi fá [okkar] samþykki,“ sagði Caleb.
Disel virðist hafa viljað vita hvað bræðrunum finndist um það að láta persónuna birtast á nýjan leik í myndunum.
„Universal kvikmyndaverið vill vera visst um að þeir séu að heiðra minningu Paul og ímynd hans, og fjölskyldu,“ bætir Cody við.
Endurkoma Brian O´Connor gæti orðið í næstu mynd, þeirri áttundu, eða í níundu eða tíundu myndinni, sem verður lokamyndin og verður sýnd árið 2021.
Engin sérstök vísbending er um að persónan komi við sögu í áttundu myndinni enn sem komið er, í það minnsta hefur Jordanna Brewster, sem lék eiginkonu Brian, Mia, staðfest að hún hafi engan aðkomu haft að áttundu myndinni. „þeir eru búnir. Ég er ekki í henni enn amk., en við skulum sjá til.“
Fast & Furious 8 kemur í bíó 14. apríl á næsta ári.