Smáfólk, eða Peanuts, hin sívinsæla teiknimyndasaga með þeim Snoopy og Charlie Brown sem aðalsöguhetjum, er á leiðinni á hvíta tjaldið í bíómynd í fullri lengd, með stuðningi fjölskyldu höfundarins, Charles Schulz sem nú er látinn.
Það er teiknimyndarmur Twentieth Century Fox fyrirtækisins, Twentieth Century Fox Animation Blue Sky Studios, sem mun framleiða myndina og stefnt er að frumsýningu 25. nóvember 2015, að því er fram kemur í breska blaðinu The Guardian. Þetta ár, eða árið 2015, á teiknimyndasagan einmitt 65 ára afmæli, auk þess sem 50 ár eru síðan sérstök jólateiknimynd um Smáfólkið var fyrst sýnd í sjónvarpi.
Sonur Schulz, Craig, og sonarsonurinn Bryan, munu skrifa handritið ásamt Cornelius Uliano. Leikstjóri verður Steve Martino, en á ferilskránni hans eru myndirnar Ice Age 4: Continental Draft og Dr. Seuss´ Horton Hears a Who!
Þegar teiknimyndasögurnar voru hvað vinsælastar lásu þær 355 milljónir manna í 75 löndum.
Myndin hefur ekki fengið heiti ennþá.