Á mánudaginn næsta verður fyrsti þátturinn af sjónvarpsseríunni Under the Dome, sem gerð er eftir sögu hrollvekjumeistarans Stephens Kings frá árinu 2009, frumsýndur á CBS sjónvarpsstöðinni bandarísku.
Sagan segir frá litlum bæ sem er aðskilinn frá heiminum vegna dularfulls hvolfþaks sem ekki er hægt að komast í gegnum, eins og sést á myndinni hér fyrir neðan:
Um 100 sjónvarps- og kvikmyndagerðir hafa verið gerðar eftir sögum Stephen Kings, en samkvæmt grein í The New York Times þá ákvað hann núna að fylgjast sjálfur með framleiðsluferli Under the Dome, öfugt við það sem hann hefur vanalega gert þegar verið er að kvikmynda sögur hans.
Samkvæmt greininni þá er það vel við hæfi þar sem þetta er saga sem hann skrifaði fyrst árið 1972, þegar King var óþekktur framhaldsskólakennari, en var ekki gefin út fyrr en 37 árum síðar, þegar King var orðinn heimsfrægur rithöfundur.
Auk þess að vera frumsýnd á CBS nú um mitt sumar, sem er óvenjulegur tími fyrir sjónvarpsþætti af þessari tegund, þá munu áskrifendur Amazon Prime geta streymt þætti úr seríunni aðeins fjórum dögum eftir að þeir eru sýndir á CBS, sem er nýjung í Bandaríkjunum.
Ásamt því að lesa handritið, þá hefur King heimsótt tökustað og boðið fram góð ráð.
Af öðrum þekktum kvikmyndagerðum af sögum Stephen King má nefna Misery, Shawshank Redemption og The Shining.
Smellið hér til að lesa viðtal við King á The New York Times.