Skrímslið Babadook er að koma – fyrsta stikla!

Fyrsta stiklan fyrir áströlsku hrollvekjuna The Babadook er komin út, en miðað við stikluna þá er myndin líkleg til að senda kaldan hroll niður bakið á fólki, sérstaklega þegar Babadok mætir á svæðið ….

2014BabadookIcon

Myndin er eftir Jennifer Kent og var frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni í janúar sl.

„Fólki gæti komið á óvart dýptin á sögunni. Ég hugsaði ekkert sérstaklega mikið um það að hræða fólk þegar ég var að gera The Babadok; ég hugsaði um að segja sögu um að horfast í augu við myrku hlutina í lífi þínu, því ef þú gerir það ekki, getur það haft afleiðingar,“ sagði Kent í samtali við áströlsku fréttastöðina SBS.

„Við vitum öll hvað það þýðir að bæla erfiðar tilfinningar og upplifanir,“ bætti hún við. „Það er það sem heillar mig og hafði áhrif á gerð myndarinnar, sem fjallar einnig um hræðsluna við að missa vitið.“

Myndin gerist sex árum eftir dauða eiginmanns Amelia, sem enn syrgir manninn. Hún glímir einnig við að ala upp son sinn sem er sex ára, sem er erfitt að hemja. Henni finnst ómögulegt að unna honum auk þess sem skrímsli ásækir hann í svefni og hann heldur að það ætli að drepa þau bæði.

Þegar barnabókin The Babadook birtist á dyrapalli þeirra við útidyrnar, þá er Samuel handviss um að Babadok sé skrímslið sem hann hefur dreymt um. Nú fara hlutirnir allir úr böndunum, og Samuel verður sífellt óútreiknanlegri og ofbeldisfyllri.

Amelia er orðin verulega hrædd við hegðun sonarins, og neyðist til að gefa honum lyf. En þegar Amelia fer að sjá örla á illsku allt í kring, þá gerir hún sér smátt og smátt ljóst að það sem Samuel talaði um, gæti verið að rætast.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan:

The Babadook verður frumsýnd í Bandaríkjunum í kvikmyndahúsum rétt fyrir Hrekkjavökuna, eða þann 24. október nk.