Back to the Future leikarinn Christopher Lloyd stritar á skíðavélinni heima hjá sér á meðan morð eru framin í nýrri stiklu úr myndinni I am Not a Serial Killer, sem væntanleg er í bíó í Bandaríkjunum 26. ágúst nk.
Myndin fjallar um strák, sem leikinn er af Max Records, sem hefur mikinn áhuga á raðmorðingjum, þó hann hafi engan áhuga á að verða sjálfur raðmorðingi. Þegar einn slíkur, sem Lloyd leikur, flytur til bæjarins, þá reynir á Records að bjarga ástvinum sínum, á sama tíma og hann berst við sína eigin innri djöfla.
Stiklan er í þónokkrum drungalegum hægagangi. Það er kalt úti, blóðið rennur, fólk er stungið, og ýmislegt fleira gerist sem gefur til kynna að um áhugaverða mynd sé að ræða.
Leikstjóri er Billy O’Brien.
Kíktu á stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan, en á plakatinu segir réttilega: „Hver bær á sér sín skrímsli“.