Þó að J.J. Abrams hafi verið ráðinn leikstjóri næstu Star Wars myndar, Star Wars 7, þá er hann með ýmis önnur járn í eldinum, þar á meðal nýju Star Trek myndina, Star Trek Into Darkness.
Hér að neðan eru nokkrar nýjar myndir úr Star Trek Into Darkness úr tímaritinu Entertainment Weekly, en þar má sjá m.a. illmennið John Harrison leikið af Benedict Cumberbatch, og Kirk skipstjóra í lífshættu, sem leikinn er af Chris Pine.
Þorparanum John Harrison er lýst af handritshöfundinum Alex Kurtzman sem meðlimi Starfleet sem snýst gegn þeim.
Sagan í myndinni er eitthvað á þessa leið: Þegar áhöfn Enterprise geimskipsins er kölluð heim, þá uppgötvar hún hryðjuverkaógn innan eigin raða sem búin er að sprengja upp geimskiptaflotann og allt sem hann stendur fyrir, og heimurinn á í miklum og aðsteðjandi vanda. Kirk skipstjóri, sem á persónulega harma að hefna, leiðir eltingarleik til heims þar sem stríð ríkir, til að ná manni sem er eins manns gjöreyðingarvopn. Eftir því sem hetjurnar okkar á Enterprise sogast dýpra og dýpra inn í átök upp á líf og dauða, þá þurfa menn að skoða líf sitt inn á við, ástarsambönd og vinskapur er í hættu. Færa þarf fórnir fyrir þá einu fjölskyldu sem Kirk skipstjóri á eftir; sem er áhöfnin hans.
Star Trek Into Darkness kemur í bíó 17. maí nk.