Í stuttu máli lýtur Skúli fúli í lægra haldi fyrir Jóa jákvæða og „Cars 3“ er fínasta skemmtun fyrir ungu og aðeins eldri kynslóðina.
Dýrðardagar Leifturs McQueen eru á undanhaldi þegar hinn kraftmikli Jackson Stormur stelur þrumunni í hverjum kappakstrinum á fætur öðrum. Leiftur stórskaðast í einni keppninni og við tekur langur tími í viðgerðir og hvíld til að takast á við komandi tímabil. Nýr styrktaraðili, Sterling, tekur við Leiftri og sér fram á að nýta frægð hans til að selja varning þar sem hann telur að kappakstursbíllinn ætti að draga sig í hlé. Leiftur neitar að láta deigan síga og með hjálp Krúsu, þjálfara síns, hyggst hann koma sér í fremstu röð á nýjan leik í heimi kappakstursins. En undirbúningstíminn fær hann til að horfast í augu við breytta tíma og sífellt hækkandi aldur, nýrri og bættari vélar og mögulega nýtt hlutverk í lífinu.
Skúli fúli gæti tekið þann pól í hæðina að benda á að í „Cars 3“ er ekkert nýtt undir sólinni og boðskapurinn um að horfast í augu við eigin veikleika, aldur og mikilvægi þess að finna sinn rétta sess í tilverunni sé margtuginn og fyrirsjáanlegur . Jói jákvæði bendir hins vegar á að góður og gildur boðskapur á sér ávallt sess og sé hann rétt framreiddur á hann fullt erindi og er fyrsta flokks skemmtun sem ungir og aldnir geta sokkið sér í. Það er reyndin með „Cars 3“ og hún slær á allar réttu nóturnar sem góð fjölskylduskemmtun.
Leiftur er skemmtileg persóna sem hefur alltaf verið frekar hvatvís og dálítið grunnhygginn en fær um að sjá heildarmyndina og læra af reynslunni. Nú horfir hann fram á breytta tíma og nýtt hlutverk og skiljanlega er það erfitt fyrir hann að aðlagast því og þess vegna reynir hann allt til þess að fresta því óumflýjanlega að leggja dekkin á hilluna. Honum til halds og trausts er þjálfarinn Krúsa sem reynir hvað hún getur að kveikja neistann í Leiftri en eitthvað annað en ónægur hraði og lúin vél plagar hann. Á sínu persónulega ferðalagi rennur það upp fyrir Leiftri að kraftar hans nýtast betur í öðru hlutverki og spilar Krúsa þar stórt hlutverk.
Góðar fjölskylduvænar sögur fjalla ávallt um lærdómsríkt ferli persóna sinna og nauðsyn þess að eltast við drauma sína og láta ekki deigan síga. „Cars 3“ tikkar í öll þau box og gerir það vel. Persónurnar eru sem fyrr litríkar og skemmtilegar; Krókur er enn hálfgerður senuþjófur með hinn stórkostlega Ladda í fyrirrúmi. Íslenska talsetningin er fyrsta flokks og margar línurnar hér hreint óborganlegar; sem dæmi hittum við hér „konung drullusokkanna“ sem Krókur er einstaklega ánægður með verðlagninguna hjá.
„Cars 3“ er hin fínasta skemmtun fyrir alla aldurshópa og passað er upp á að hinir fullorðnu fái eitthvað sem ætlað er bara þeim; sem dæmi þá er hér bílaband (í orðsins fyllstu) að spila Springsteen lagið „Glory Days“ á krá.