Skelfilegt Newsnight viðtal hertogans af York fær nú framhaldslíf sem kvikmynd með Hugh Grant í hlutverki hertogans, þ.e. Andrés prins.
Myndin á að heita Scoop og byggir á samnefndri bók eftir Sam McAlister, BBC framleiðandans sem fékk Andrés til að koma í viðtal til að ræða vinskap sinn við barnaníðinginn Jeffrey Epstein.
Bókaforlagið United Agents, umboðsaðili McAlister, staðfestir fréttina, og lýsir málinu sem spennandi frétt.
Handritið skrifar Peter Moffat fyrir Lighthouse framleiðslufyrirtækið.
Hvorki er búið að ráða leikstjóra né leikara, þó byrjað sé að bera víurnar í einhverja.
Alltaf sömu viðbrögð
Hilary Salmon stofnandi Lighthouse sagði við Deadline: „Viðbrögðin eru alltaf þau sömu, „Ó, vá!“
Um leikaraval sagði Salmon. „Við höfum auðvitað hugmyndir,“ en sagði að of snemmt væri að segja neitt meira. „Enginn hefur verið ráðinn.“
Hún neitaði að staðfesta að Grant væri með.
Moffat, sem er höfundur Netflix dramans Your Honor með Bryan Cranston, sagði að Scoop myndi leggja áherslu á hvernig BBC Newsnight teymið náði að tryggja sér viðtalið og svo sjálfa upptökuna.
Hann bætti við: „Hitt málið er, „afhverju samþykkti hann að gera þetta?“ Afhverju fannst honum það góð hugmynd að fara í langt viðtal við Emily Maitlis á BBC?“
Stórskotahríð gagnrýni
Hertoginn fékk eftir viðtalið, sem tekið var upp í Buckingham höll í nóvember 2019, á sig sannkallaða stórskotahríð af gagnrýni.
Hann sýndi í viðtalinu enga eftirsjá vegna vinskaparins við Epstein, né heldur hafði hann samúð með fórnarlömbunum, eins og sagt er frá í The Telegraph.
Viðtalið var veitt eftir að Virginia Roberts Giuffre, sem var seld mansali af Epstein, sagði að flogið hefði verið með hana til Lundúna og þar hefði hún verið neydd til kynmaka með hertoganum. Hún var þá sautján ára gömul.
Getur ekki svitnað
Andrés sagði að hann myndi ekki eftir að hafa hitt Giuffre og sagði að hann hefði verið á pítsustaðnum Pizza Express í Woking kvöldið sem um var rætt.
Þegar hann var spurður um þau orð Giuffre að prinsinn hefði verið allur sveittur þegar hún hitti hann, sagði hann að hann gæti ekki svitnað vegna ákveðins læknisfræðilegs ástands.
Nokkrum dögum eftir viðtalið neyddist hertoginn til að segja sig frá opinberum störfum.