Mynd leikstjórans David O. Russell, Silver Linings Playbook, kom sá og sigraði á 17. árlegu Satellite verðlaunahátíðinni, sem haldin var um helgina á Intercontinental hótelinu í Beverly Hills í Los Angeles í Bandaríkjunum.
Myndin hlaut fimm verðlaun, þar á meðal fyrir bestu mynd ársins. Russell var einnig valinn besti leikstjórinn, og aðalleikararnir, þau Bradley Cooper og Jennifer Lawrence, voru valin sem bestu leikarar. Fimmtu verðlaunin sem myndin hlaut voru fyrir klippingu, sem þau Jay Cassidy og Crispin Struthers hlutu.
Satellite verðlaunin eru veitt af Alþjóðlegu blaðamannaakademíunni ( the International Press Academy ), en þar innanborðs eru m.a. Evrópsku gagnrýnendasamtökin ( the European Critics Association ).
Sjáðu stikluna úr Silver Linings Playbook hér að neðan:
Á hátíðinni eru einnig veitt verðlaun fyrir sjónvarpsefni, en þar voru það sjónvarpsþættirnir Homeland og The Big Bang Theory sem voru atkvæðamestir, og fengu þrjú verðlaun hvor þáttur.
Af fleiri verðlaunahöfum má nefna að Anne Hathaway fékk verðlaun fyrir meðleik í Les Miserables, en myndin fékk einnig verðlaun fyrir besta lag í kvikmynd, Suddenly, og fyrir besta hljóð.
Besti meðleikari í kvikmynd var valinn Javier Bardem í Skyfall, en Bardem lék þar óþokkann Raoul Silva með eftirminnilegum hætti.
Hin franska Intouchables og hin Suður – Kóreska Pieta, deildu verðlaunum fyrir bestu erlendu mynd. Rise of the Guardians var valin besta teiknimyndin og Chasing Ice besta heimildamyndin.
Mark Boal fékk verðlaun fyrir handrit sitt fyrir Zero Dark Thirty, og David Magee fékk verðlaun fyrir besta handrit byggt á áður útgefnu efni fyrir Life of Pi.