Eftir að hafa sokkið enn neðar við gerð myndarinnar The Last Airbender, hefur leikstjórinn alræmdi M. Night Shyamalan ákveðið að taka nýtt skref á ferli sínum; hann ætlar að leikstýra kvikmynd byggðri á handriti, sem er ekki eftir hann sjálfan. Sú mynd mun bera heitið One Thousand A.E. og er skrifuð af Gary Whitta (The Book of Eli) og Stephen Gaghan (Syriana), vonandi þýðir það að Shyamalan sjálfur fari ekki að birtast í myndinni eins og honum er vant. Þeir sem munu birtast í myndinni hins vegar (eða leika í henni til að vera nákvæmur) eru feðgarnir Will og Jaden Smith, sem munu leika feðga sem, eftir að hafa brotlent á Jörðinni þúsund árum eftir brottflutning hennar, neyðast til að lifa af í ókunnugu umhverfi.
Nú gæti verið að það bætist við fjölskyldu myndarinnar, enda eru þær Zoë Kravitz og Sophie Okonedo í viðræðum um að leika dóttur og eiginkonu Will Smiths; Kravitz sem sú fyrrnefnda og Okonedo sú síðari. Hvort að Kravitz taki við hlutverkinu er hins vegar óljóst, enda fer hún til Ástralíu á næsta ári til að taka upp fjórðu Mad Max myndina, Fury Road.
Shyamalan hefur lýst One Thousand A.E. sem hálfgerðu draumaverkefni (hápunkturinn að hann fái að vinna með Will og Jaden Smith), en tökur á myndinni hefjast bráðlega; og er búist við henni 7. júní árið 2013.