Fyrsta sýnishornið, eða kynningarmyndbandið öllu heldur, úr nýjustu Matt Damon myndinni, The Martian, eða Marsbúinn í lauslegri þýðingu, er komið út, en í því gengur Damon, í hlutverki geimfara á leið til plánetunnar Mars, um geimskipið The Hermes og kynnir áhafnarmeðlimi. Myndbandið gerist 6 klukkutímum áður en lagt er af stað.
Við vitum fyrirfram að Damon er talinn af og verður strandaglópur á plánetunni eftir að geimskipið lendir í fárviðri, en geimfarinn verður að reyna að draga fram lífið á plánetunni einn og yfirgefinn, með lítið af tækjum eða öðrum vistum meðferðis. Markmiðið er að þrauka nógu lengi til að ná að koma skilaboðum til Jarðar.
Leikstjóri The Martian er enginn annar en Prometheus og Alien leikstjórinn Ridley Scott.
Aðrir leikarar í myndbandinu eru Jessica Chastain, Kate Mara, Sebastian Stan, Michael Pena og Aleksel Hennie, en þau Chiwetel Ejiofor, Kristen Wiig og Sean Bean leika einnig í myndinni.
The Martian er byggð á bók Andy Weir og kemur í bíó 25. nóvember nk.