Seinfeld þénar mest allra

Gamanþáttaserían Seinfeld hefur þénað 2,7 milljarða Bandaríkjadala frá því að framleiðslu þáttanna var hætt. Frá þessu er greint í vefútgáfu New York Post í dag. Þetta þýðir að þættirnir eru þeir arðbærustu í sjónvarpssögunni. 2.7 milljarðar dala eru um 352 milljarðar íslenskra króna á núverandi gengi.

Jerry Seinfeld og Larry David eru höfundar þáttanna og njóta ávaxtanna af velgengninni þar sem þeir fá hluta af tekjunum í sinn hlut.

Tekjurnar koma aðallega af endursýningum þáttanna í sjónvarpi. Alls voru gerðir 180 þættir af Seinfeld á sínum tíma á níu ára tímabili. Þetta þýðir að hver einasti þáttur hefur þénað 14 milljónir dala hingað til.

Forbes tímaritið telur að Seinfeld þéni 65-80 milljónir Bandaríkjadala á endursýningum þáttanna á ári, eða 8,5 – 10,5 milljarða íslenskra króna.

Aðrir sem léku aðalhlutverkin í sjónvarpsþáttunum með Seinfeld sjálfum, þau Jason Alexander, Michael Richards og Julia Louis – Dreyfus, fá hluta af tekjum af sölu þáttanna á DVD, en ekkert af endursýningum.

Seinfeld og Richards á góðri stund í hlutverkum sínum.

Stikk: