Segir fjórðu Matrix vera ástarsögu

Fjórða Matrix-kvikmyndin, sem enn hefur ekki fengið nafn, er nú á fullu í tökum í Berlín og hafa aðstandendur verið duglegir við að halda leynd yfir söguþræðinum.

Það er Lana Wachowski sem leikstýrir nýju myndinni sem enn hefur ekki fengið nafn. Hún leikstýrði og skrifaði upprunalega Matrix-þríleikinn ásamt Lily systur sinni. Lana kemur einnig að hand­ritinu á­samt þeim Aleksandar Hemon (The Lazarus Project) og David Mitchell (Cloud Atlas).

Auk Keanu Reeves mun Matrix leikkonan Carrie-Anne Moss snúa aftur, og leikstjóri og handritshöfundur er Lana Wachowski. Búist er við útgáfu myndarinnar í apríl á næsta ári.

Nýverið ræddi Reeves um (langþráða?) framhaldið við BBC-þáttinn The One Show og hafði jákvæða hluti að segja um handritið, þó var hann þögull sem gröfin um innihaldið og sagði að allt myndi skýrast á næstunni. Hann gaf þó upp að sagan tæki nýjan vinkil á hugmyndir fyrri Matrix-mynda og lofar frábærum hasarsenum.

„Þetta er fallegt handrit og í grunninn ástarsaga. Hún er hrífandi og vekur innblástur,“ sagði Reeves.

Þegar leikarinn var spurður hvort fjórða kvikmyndin gerist á undan atburðum þríleiksins var svarið skýrt:

„Nei, við látum fortíðina í friði.“

Fyrsta myndin kom út árið 1999 og þótti tímamótaverk þegar kom að tæknibrellum. Næstu tvær myndir voru sýndar á árinu 2003, hlutu ágætis aðsókn en misgóðar viðtökur gagnrýnenda. Þénuðu myndirnar þrjár samtals 1,6 milljarð dollara í miðasölum kvikmyndahúsa.