Ný stikla, eða öllu heldur kitla, er komin fyrir nýjustu mynd leikstjórans Jonathan Glazer, vísinda-geðtryllirinn Under The Skin. Þetta er þriðja mynd leikstjórans í fullri lengd og með aðalhlutverkið fer Scarlett Johansson.
Myndin er kvikmyndagerð skáldsögu eftir Michel Faber með sama nafni og fjallar um Isserley (Scarlett Johansson), konu sem fer í ferð í gegnum Skotland og notfærir sér stóra og kraftalega puttaferðalanga. Þetta er ekki einhver gömul norn, eins og gefur að skilja fyrst að Johansson er í aðalhlutverkinu, heldur er þetta geimvera sem hefur tekið á sig mannsmynd og notar kyntöfra sem beitu til að lokla fórnarlömbin til sín.
Sjáðu kitluna hér að neðan:
Það er klárlega eitthvað undarlegt á ferð í þessari mynd ef marka má kitluna. Í bókinni þá fer Isserly með fórnarlömbin í bleksvart hyldýpi, sem var ekki líklegt til að koma vel út í kvikmynd, en samt virðist það vera að takast miðað við allt svartnættið í kitlunni!
Myndin er sýnd á þremur kvikmyndahátíðum á næstunni, í Feneyjum, Toronto og á Telluride, og hefur fengið jákvæð viðbrögð.
Leikstjórinn sagði við dagblaðið bandaríska L.A. Times að hluti af myndinni væri tekinn upp með földum myndavélum, af Scarlett að ná í menn, sem voru í raun ókunnugir alvöru puttaferðalangar, sem héldu að Johansson væru í raun að bjóða þeim far.