Nýjasta kvikmynd Nacho Vigalondo, sem hefur sérhæft sig í stuttmyndum og fengið m.a. tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir stuttmynd sína 7:35 In The Morning hefur fengið mikið umtal vegna þess að fyrrverandi klámstjarnan Sasha Grey mun fara með aðalhlutverk myndarinnar ásamt stórleikaranum Elijah Wood og þykja þau heldur ólíkur leikaradúett. Open Windows er eldheit spennumynd sem fjallar um mann sem vinnur stefnumót með uppáhalds leikkonunni sinni.
Þegar maður lítur yfir feril þeirra beggja þá eru þeir afar ólíkir. Elijah Wood byrjaði að leika á barnsaldri í kvikmyndum og reis síðan upp á stjörnuhimininn fyrir leik sinn í The Lord Of The Rings og hefur gert það gott í myndum á borð við Sin City og Green Street Hooligans. Sasha Grey átti hinsvegar erfitt uppdráttar í skóla á æskuárunum og horfði upp á skilnað foreldra sinna barnung. Á unglingsaldri hóf hún störf sem afgreiðsludama á steikhúsi og safnaði pening til þess að flytja til Los Angeles. Í borg englanna vann hún við fyrirsætustörf og fór svo að leika í klámmyndum. Árið 2011 hætti hún opinberlega að leika í klámmyndum og einbeitir sér nú að alvarlegri hlutverkum.
Söguþráður Open Windows hefur verið afhjúpaður og fjallar myndin um Nick (Elijah Wood) sem vinnur keppni um að fá stefnumót með konu drauma sinna, leikkonunni Jill Goddard (Sasha Grey). Maður að nafni Chord skipuleggur keppnina og segist vinna hjá umboðsskrifstofu Jill. Þegar Nick mætir til Austin í Texas til þess að hitta Jill þá hefur Chord samband við hann og greinir honum frá því að það verði ekkert úr stefnumótinu. Í staðinn geti hann horft á Jill í tölvu sem er tengd við faldar myndavélar á heimilinu hennar. Nick þiggur það og fylgist spenntur með henni í tölvunni um kvöldið. Hlutirnir fara vel af stað fyrir Nick, því Jill er alein og ómeðvituð um að það sé verið að fylgjast með henni á heimili hennar. Seinna um kvöldið fara einkennilegir hlutir að eiga sér stað heima hjá Jill og þá þarf Nick að gera það upp við sig hvort hann eigi að ganga í burtu eða grípa til aðgerða.
Open Windows er í tökum og er óvíst hvenær hún rati í kvikmyndahús.