Grínistinn Adam Sandler hefur ákveðið að ljá vampírunni Drakúla rödd sína í væntanlegri teiknimynd, Hotel Transylvania. Myndin mun fjalla um konung vampíranna, en hann rekur hótel í heimalandi sínu þar sem hin ýmsu skrímsli og ófreskjur geta hvílt lúin bein. Málin flækjast heldur þegar dóttir Drakúla verður ástfangin af hinum unga Jonathan Van Helsing.
Til liðs við Sandler ganga vinir hans Kevin James, sem mun fara með hlutverk skrímsli Frankenstein, og David Spade sem mun ljá hinum afmyndaða Quasimodo rödd sína. Leikstjóri myndarinnar er Genndy Tartakovsky, sem lengi hefur leitað að réttu myndinni til að hefja kvikmyndaferil sinn. Tartakovsky hefur getið sér gott nafn í sjónvarpi en hann hefur unnið við þætti á borð við Dexter’s Laboratory og Samurai Jack.