Bandaríski gamanleikarinn Adam Sandler hefur samið ýmis grínlög í gegnum ferilinn og frá upphafi hans í Saturday Night Live. Ákvað hann þá að nýta tækifæri eigin sóttkvíar og flytja lag um samtímann en þar er að sjálfsögðu slegið á létta strengi.
Í textanum þakkar Sandler öllum læknum og hjúkrunarfólki sérstaklega fyrir störf sín á erfiðum tímum. Hann vonast sérstaklega til þess að þetta fólk bjargi heiminum fyrr en síðar, „…því ég er orðinn virkilega þreyttur á fjölskyldunni minni.“
Sandler flutti þetta svonefnda „Quarantine Song“ í spjallþætti Jimmy Fallon á dögunum, en Fallon og allir hans gestir senda út innslög sín frá eigin heimahúsum, eins og við mátti búast vegna samkomubanna um allan heim.
Hér má finna eyrnaorm Sandlers um sóttkvína.
Sandler hefur undanfarin ár verið þekktur fyrir gamanmyndir sem þykja arfaslakar og smábarnalegar en engu að síður státar hann af gífurlegum vinsældum en myndir hans eru með eitt mesta áhorfið á streymisveitum. Breyttist þó töluvert hljóðið í áhorfendum og gagnrýnendum þegar Sandler sýndi stjörnuleik í kvikmyndinni Uncut Gems.
Í Uncut Gems leikur Sandler skartgripasala í New York sem er gæddur miklum persónutöfrum. Skartgripasalinn er ávallt á höttunum eftir næsta stóra feng en í myndinni leggur hann allt í sölurnar til að ná þeim stærsta.
Myndin er aðgengileg á streymisveitu Netflix og er óhætt að mæla með henni.