Kvikmyndatitillinn Heimili fröken Peregrine fyrir sérkennileg börn, sem heitir á ensku Miss Peregrine’s Home for Peculiar Children, er sannarlega þónokkur tungubrjótur fyrir útlendinga, eins og sést berlega þegar leikarar myndarinnar gera tilraun ( af veikum mætti ) til að bera fram íslenska titilinn.
Þessi tilraun var gerð í tilefni af frumsýningu myndarinnar hér á landi.
Heimili fröken Peregrine fyrir sérkennileg börn byggir á samnefndri bók sem hefur notið mikilla vinsælda. Myndinni leikstýrir enginn annar en Tim Burton og stórleikarar á borð við Evu Green, Samuel L. Jackson, Judi Dench, Rupert Everett og Chris O’Dowd fara með hlutverk í myndinni.
Þegar Jakob var lítill drengur hafði afi hans sagt honum sögur af barnaheimili þar sem munaðarlaus börn voru ekki bara undarleg og öðruvísi heldur bjuggu einnig yfir óvenjulegum hæfileikum. Nú þegar Jakob er orðinn sextán ára ákveður hann að athuga hvort eitthvað hafi verið til í þessum sögum. Það sem hann uppgötvar á eftir að flækja hans eigið líf verulega.
Sjáið hvernig til tókst við íslenska framburðinn hér að neðan – Fyrst eru það Asa, Ella og Fin og svo sjálfur Samuel L. Jackson:
Heimili fröken Peregrine var frumsýnd í dag í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói og Borgarbíói, Akureyri.