Það kannast kannski margir við myndbönd sem orðið hafa vinsæl á YouTube um sögu dansins, ( Evolution of Dance ), en nú er komið út glænýtt myndband þar sem áhættuleikari fer með svipuðum hætti í gegnum sögu áhættuleiks, ( Evolution of Movie Stunts ), og gerir það með glæsibrag!
Damien Walters er breskur fyrrum hlaupari og fimleikamaður, sem starfar nú sem áhættuleikari og hefur leikið í myndum eins og Kick-Ass, Captain America: The First Avenger, Kingsman: The Secret Service, og Assassin’s Creed, sem væntanleg er í bíó 30. desember nk.
Walters tók sig til með hjálp Honda og All4, VOD rásar Channel 4 í Bretlandi, og gerði myndband um þróun áhættuleiks í gegnum tíðina, en myndbandið var allt tekið upp á löngu hlaupabretti.
Walter byrjar á léttu skokki, en síðan breytist umhverfið skyndilega með tæknibrellum og hann hangir utan á byggingu. Stuttu seinna er hann kominn í slag inni á krá. Að lokum kviknar í honum, og aðstoðarmenn koma og slökkva eldinn eftir smá tíma.
Áhættuleikarar og konur fá ekki alltaf þá athygli sem þau eiga skilið, og enginn verðlaunaflokkur er til fyrir þessa leikara á Golden Globe eða Óskarsverðlaunahátíðinni, en bransinn hefur barist fyrir því í mörg ár að veitt verði verðlaun fyrir áhættuleik á þessum hátíðum.
Conrad Palmisano, gamalreyndur áhættuleikari segir: „Við tökum handritið og gefum því líf. Fólk elskar spennu; þessvegna fer fólk í bíó. Með fullri virðingu, en hver fer í bíó til að sjá hárgreiðslu leikaranna.“
Kíktu á myndbandið hér fyrir neðan, og þarf fyrir neðan er hægt að kíkja á bakvið tjöldin í myndbandi af Instagram reikningi Walters: