RWWM til hvalveiðiþjóðarinnar Japans

Myndin Reykjavik Whale Watching Massacre (RWWM) í leikstjórn Júlíusar Kemp verður tekin til sýninga í tveimur kvikmyndahúsum í Tokyo í Japan í sumar. Frá þessu er greint á kvikmyndavef Lands og sona, logs.is.
Í frétt logs.is segir að myndin hafi þegar verið sýnd víða um heim og verið seld til margra landa þar sem á eftir að frumsýna hana. Nú er stefnan sem sagt tekin á Japansmarkað, en japanska stórleikkonan Nae Yuki lék einmitt í myndinni.
Í fréttinni segir Ingvar Þórðarson framleiðandi að söguþráður myndarinnnar höfði eflaust til Japana: ,,Japansmarkaðurinn er stór og mjög spennandi. Japanir eru hvalveiðiþjóð eins og Íslendingar og því höfðar söguþráður myndarinnar eflaust til þeirra. Svo er mikill áhugi fyrir myndum á borð við RWWM í Japan, þannig að við erum mjög spenntir fyrir því að sjá hver viðbrögðin verða,“ segir Ingvar H. Þórðarson framleiðandi myndarinnar á vef logs.is.