Nýtt plakat hefur verið gefið út fyrir íslensku hrollvekjuna Rökkur, eða Rift eins og hún heitir á ensku.
Í tilkynningu frá aðstandendum segir að plakatið sé svokallað „teaser“ plakat sem notað verði til að kynna myndina á kvikmyndahátíðum og á vefmiðlum í sumar. Hönnuður plakatsins er Ómar Hauksson. Fullbúið plakat verði svo kynnt í byrjun hausts, ásamt nýrri stiklu.
Í tilkynningunni segir einnig að dreifingarréttur myndarinnar í Norður-Ameríku hafi nýverið verið seldur til dreifingarfyrirtækisins Breaking Glass Pictures, sem mun sýna myndina í kvikmyndahúsum og gefa svo út á VOD og DVD í vetur.
Rökkur, sem var heimsfrumsýnd sem lokamynd kvikmyndahátíðarinnar í Gautaborg síðastliðinn febrúar, verður næst sýnd í Þýskalandi, á FilmFest München. Þaðan heldur hún til Los Angeles, þar sem hún tekur þátt í alþjóðlegu keppninni á OutFest, einni stærstu hinsegin (LGBTQ) kvikmyndahátíð heimsins. Rökkur verður einnig sýnd á BIFAN hátíðinni í Suður-Kóreu (Bucheon International Fantastic Film Festival), sem er stærsti viðburður tengdur hrollvekjum, vísindaskáldsögum og fantasíu-kvikmyndum í allri Asíu.
Fleiri hátíðir eru á döfinni seinna í ár samkvæmt tilkynningunni, og verða þær tilkynntar síðar. Rökkur verður frumsýnd á Íslandi 27. október næstkomandi á vegum Senu.
Með aðalhlutverk í Rökkri fara þeir Björn Stefánsson og Sigurður Þór Óskarsson, ásamt Aðalbjörgu Árnadóttur og Guðmundi Ólafssyni. Leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar er Erlingur Óttar Thoroddsen, sem síðast sendi frá sér hrollvekjuna Child Eater, og vinnur nú að kvikmyndaaðlögun bókarinnar Kulda eftir Yrsu Sigurðardóttur, sem Sigurjón Sighvatsson sér um að framleiða.
Rökkur er dramatískur sálfræðiþriller með hrollvekjandi ívafi og ein fyrsta íslenska kvikmyndin sem fjallar alvarlega um ástarsamband tveggja manna, eins og það er orðað í tilkynningunni.
Nokkrum mánuðum eftir að þeir hættu saman, vaknar Gunnar upp við skringilegt símtal frá fyrrverandi kærastanum sínum, Einari. Einar segir að hann fái það stundum á tilfinninguna að hann sé ekki einn þegar hann er staddur í Rökkri, fjölskyldusumarbústaðnum sem stendur undir Snæfellsjökli. Gunnar keyrir af stað upp á nesið til þess að sjá um hvað málið snýst, og kemst fljótt að því að ekki er allt sem sýnist.
Sjáðu plakatið hér fyrir neðan og kitlu þar fyrir neðan: