Suicide Squad leikkonan Margot Robbie hefur verið ráðin í hlutverk listdansdrottningarinnar Tonya Harding í myndinni I, Tonya. Handrit skrifar Steven Rogers, en um er að ræða sanna sögu íþróttastjörnu, um ris hennar og fall.
Tonya Harding ólst upp í Portland í Oregon. Hún átti erfiða æsku, en reis upp til frægðar og frama og varð einn besti listdansari heims á skautum. Hún varð fysta konan til að gera þrefaldan snúning í stórri keppni. Árið 1991 vann hún bandaríska meistaramótið og varð önnur á heimsmeistaramótinu. Einvígi hennar og Nancy Kerrigan á Ólympíuleikunum í Lillehammer árið 1994 var það sem margir biðu spenntir eftir, en hneykslismál varð henni að falli, og skuggi þess hvílir enn yfir henni, tuttugu árum síðar.
Harding varð alræmd fyrir að hafa átt þátt í árás á Nancy Kerrigan, að undirlagi eiginmanns hennar, Jeff Gillooly, og tveggja þrjóta, sem ætluðu sér að brjóta hné Kerrigan.
Þeim tókst þó aðeins að meiða hana lítillega og náðust fljótt. Gillooly snerist eftir þetta gegn konu sinni til að forðast fangelsisvist. Kerrigan vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum, en Harding varð í 8. sæti. SA samtökin settu Harding síðan í ævilangt keppnisbann og tóku af henni verðlaunin frá árinu 1994.
Enn er leitað að leikstjóra fyrir myndina, sem og fjármagni.
Rogers skrifaði handrit myndarinnar upp úr fjölda viðtala sem hann tók við Tonya Harding og Jeff Gillooly.
Myndin mun segja frá fáránleikanum í allri atburðarásinni, eins og MovieWeb orðar það, og gefur innsýn í hlið Harding á málinu öllu.
Robbie má næst sjá í The Legend of Tarzan í sumar, og stuttu síðar í hlutverki Harley Quinn í ofurhetjumyndinni Suicide Squad. Nýjasta mynd hennar er Whiskey Tango Foxtrot, sem kom í bíó í Bandaríkjunum í síðasta mánuði.
I, Tonya kemur í bíó árið 2018.