Það er óhætt að segja að það sé risastór bíóvika framundan í íslenskum kvikmyndahúsum.
Fyrst ber að geta frumsýningar á nýrri íslenskri grínhasarmynd, Leynilöggu, núna á miðvikudaginn. Það eru örugglega fjölmargir sem bíða spenntir eftir að sjá þessa fyrstu bíómynd fyrrum landsliðsmarkvarðarins Hannesar Þórs Halldórssonar í fullri lengd, sem hefur á að skipa einvalaliði leikara og grínista, eins og Audda, Sveppa, Steinunnar Ólínu, Steinda, Vivian Ólafsdóttur, Björn Hlyns, Júlíönu Söru og Jóns Gnarrs svo einhverjir séu nefndir.
Heimsklassa bílaeltingarleikir, spenna, illt ráðabrugg og lögga í vandræðum með sjálfa sig kemur allt við sögu í myndinni.
Ath. að tvær útgáfur myndarinnar eru í boði, ein fyrir 12 ára og eldri og ein fyrir 16 ára og eldri.
Þegar líður á vikuna fáum við svo tvær myndir til viðbótar í bíó, Venom: Let there be Carnage og Ron´s Gone Wrong, en þeir sem vilja vera fyrri til geta séð Venom á forsýningum daginn áður, eða á fimmtudaginn.
Frumsýningu Venom var frestað nokkrum sinnum vegna kórónuveirufaraldursins. Fyrsta dagsetning var október 2020, svo júní 2021, svo september 2021 og svo er hún núna loksins komin, í október 2021.
Eins og titill myndarinnar ber með sér er Carnage aðal vondi kallinn í myndinni í túlkun Woody Harrelson. Hann sleppur úr fangelsi eftir að aftaka hans fer forgörðum og þá er fjandinn laus.
Þriðja myndin sem ungir sem aldnir geta skemmta sér yfir um næstu helgi, Ron´s Gone Wrong, eða Ron er í rugli, gerist í heimi þar sem vélmenni eru orðin bestu vinir mannanna og spurning hvenær við megum búast við einhverju svipuðu í alvörunni!
Sagan hefst með kynningu á B-Bot vélmennunum sem allir krakkar eiga, en þá fær Ron bilað vélmenni í afmælisgjöf. Því fylgja fyrst vonbrigði en svo allskyns skemmtileg ævintýri.
Fylgstu áfram með á Facebook því Kvikmyndir.is mun gefa miða á myndina í vikunni.