Mig hefur alltaf langað til að kíkja á RIFF en alltaf fundið eitthvað „betra“ að gera þar til nú. Loksins hef ég tækifæri til að upplifa þennan frábæra menningarviðburð en það er alls ekki sjálfsagt að við kvikmyndaáhugamenn á þessu litla skeri fáum heila kvikmyndahátíð út af fyrir okkur, því vil ég hrósa þeim sem standa að RIFF fyrir þessa frábæru hátíð.
Ég fór á mínar fyrstu sýningar í gær 30. september og valdi tvær mjög ólíkar myndir en þær voru báðar sýndar í Bíó Paradís, mest kósý kvikmyndahúsi okkar borgarbúa. Líkt og Steini reið ég á vaðið með Chasing Ice en hún hefur unnið til fjölda verðlauna á kvikmyndahátíðum um allan heim. Hún fjallar um verk ljósmyndarans James Balog sem hefur síðan 2005 verið að mynda jökla, hann vill sýna fólki á sjónrænan máta hvernig loftslagsbreytingar af mannavöldum hafa áhrif á jöklana en þeir skreppa saman núna á ógnarhraða. Hann setti upp myndavélar á jöklum víða um heim til að taka myndir á klukkustundar fresti á meðan dagsbirtu nyti við, meðal annars á Sólheimajökli hér á Íslandi. Myndirnar eru vægast sagt sláandi og sat ég með kökkinn í hálsinum og tárin í augunum yfir því hversu slæmt ástandið er orðið og mun verða á næstu áratugum. Það er mun raunverulegra að sjá myndrænt áhrif loftslagsbreytinganna en eins og Balog segir þá nær tölfræðin ekki til allra, línurit og þess háttar er allt of þurrt og leiðinlegt en mynd segir meira en þúsund orð, eða þúsund tölur í þessu tilfelli. Myndin er samt ekki eins þung og dramatísk og þið kannski haldið, það er talsvert um húmor þar sem leiðangrar hópsins fóru ekki alltaf eins og þeir voru áætlaðir og einnig er margt spennandi sem lætur mann grípa andann á lofti eins og þegar mennirnir voru að taka smá áhættur í ísklifri. Eftir sýninguna heyrðist mér á áhorfendum að þeir væru sáttir, ein talaði um að hana langaði að klappa á ýmsum stöðum í myndinni. Þessi mynd minnir um margt á An Inconvenient Truth að því leyti að mann langar til að gera eitthvað til að hjálpa plánetunni okkar eftir að hafa horft á hana. Hún hvetur mann að minnsta kosti til að lifa aðeins grænna lífi.
Seinni myndin sem ég fór á er hrollvekja og heitir Suspiria en hún er frá árinu 1977 og er ein þekktasta mynd Ítalska leikstjórans Dario Argento. Þrjár myndir eftir leikstjórann eru sýndar á hátíðinni en auk Suspiria eru það Inferno (1980) sem er eins konar framhald af Suspiria og Dracula 3D (2012) sem ég ætla að sjá í vikunni og fjalla um seinna. Argento hlýtur heiðursverðlaun RIFF í ár fyrir æviframlag sitt til kvikmyndalistarinnar. Suspiria fjallar um unga Bandaríska stúlku að nafni Suzy sem fer til Þýskalands í ballettskóla en stúlkan kemst smám saman að því að kennararnir eru í raun nornir sem hafa ekkert gott í hyggju. Þetta er mjög sérstök mynd, kvikmyndatakan og klippingin eru ekki eins og maður á að venjast en annað hvort fílar maður það eða ekki. Þegar leið á myndina var ég orðin frekar þreytt á langdregnu skotunum af smáatriðum í umhverfinu. Sagan í sjálfu sér er ekkert meistaraverk, þetta er hefðbundin uppbygging hryllingmyndar og leikararnir eru ekkert að vinna neina leiksigra fyrir utan helst Alida Valli sem leikur fröken Tanner. Dubbið er slæmt á mörgum stöðum í myndinni, tæknibrellurnar eru ekkert til að hrópa húrra fyrir (miðað við myndir frá sama tíma) og blóðið er einstaklega gervilegt. Þar með eru gallarnir upptaldir en þrátt fyrir þetta hafði ég gaman af Suspiria, það er martraðakenndur fílingur sem einkennir hana og skemmtileg notkun á litum og lýsingu gera myndina áhugaverða áhorfs, byggingin sem hýsir skólann er undurfögur að utan og innan þannig að það er alltaf eitthvað sem fangar augað í hverri senu. Það eru nokkur atriði í myndinni sem ná að byggja upp spennu og ótta við hvað gerist næst og tónlistin spilar þar stórt hlutverk en hún er einstaklega ógnvekjandi. Ég heyrði á tal tveggja manna þar sem þeir ræddu tónlistina eftir sýninguna en hún sat greinilega í fleirum en mér. Mig grunar að Suspiria sé ein af þeim myndum sem fólk annað hvort fílar í botn eða hatar.
Í dag er á dagskránni að kíkja á Whore’s Glory í Bíó Paradís og svo bruna beint í Háskólabíó að horfa á Beasts of the Southern Wild.
Endilega deilið með okkur hvað þið eruð búin að sjá og hvernig ykkur leist á. Vona að þið séuð að skemmta ykkur jafn vel á RIFF og ég.