RIFF er hafin! 5 spennandi myndir!

Reykjavík International Film Festival verður sett á stokk með glæsilegri opnunarhátíð í kvöld, og hefur heill haugur af myndum verið staðfestur á hátíðina í ár. Þorsteinn Valdimarsson, sá ágæti penni hjá Kvikmyndir.is, leit yfir listann fyrir nokkru síðan og pikkaði út fimm titla sem hann ætlar ekki að missa af. Hér er sá listi:

Kon-Tiki

Þetta er ein stærsta mynd sem Norðmenn hafa gert, og hefur fengið rífandi fínar viðtökur í heimalandinu, en yfir 400.000 manns hafa séð hana í bíó þar. Fyrir þá sem ekki vita fjallar myndin um ævintýralegan leiðangur norska vísindamannsins Thor Heyerdahl sem sigldi yfir Kyrrahafið á balsaviðsfleka, bara til þess að sanna að það væri hægt. Mynd sem maður hefði haldið að myndi fara í almenna dreifingu hér á landi. Allavega verður RIFF fyrsta tækifærið okkar til þess að sjá hana.

 

Comic-Con Episode IV: A Fans Hope

Heimildamynd eftir Morgan Spurlock um stærstu nördaráðstefnu árs hvers, þar sem fram koma nær allir sem þú myndir búast við í þannig mynd. Harry Knowles, Stan Lee, Joss Whedon, Kevin Smith, Eli Roth og fjöldi annarra. Ekki bara er þetta það næsta sem ég er líklegur að komast San Diego á næstunni, heldur hefur einnig heyrst að myndin sé stórskemmtileg, meira að segja frá þeim sem ekki hafa alltaf fílað Spurlock.  Ég hef yfirleitt alltaf fílað hann, þannig að ég býst bara við góðu.

 

Poulet aux Prunes



Marjane Satrapi sendi árið 2007 frá sér hina stórskemmtilegur teiknimynd Persepolis (sem verður einnig sýnd á hátíðinni). Hún verður sérstakur gestur hátíðarinnar, og mætir líka með þessa nýjustu mynd sína, Kjúkling með Plómum. Sú mynd er líka byggð á teiknimyndasögu eftir Satrapi, en í þetta skiptið gerðu þau Vincent Paronnaud leikna mynd, þó í mjög svo stíliseruðu umhverfi. Segir hún frá þunglyndum fiðluleikara sem rifjar upp æskuár sín og spyr sig hvert hamingjan hafi horfið. Þó að sagan sem þessi mynd byggir á sé mun einfaldari en Perspolis var, ætti hún að vera jafn mikil upplifun.

 

Chasing Ice



Heimildamynd um James Balog, ljósmyndara National Geographic, sem eitt sinn var efasemdamaður um loftslagsbreytingar af mannavöldum, en hefur á ferðum sínum um norðurslóðir séð óhrekjandi sönnunnargögn þess að loftslag okkar fer síhlýnandi. Myndin sínir „Time-lapse“ myndir af jöklum og ísjökum, þar sem árum er þjappað saman í sekúndur, sem Balog hefur safnað saman. Örugglega ein af þeim myndum sem eru þrisvar sinnum áhrifaríkari í bíó.

 

Dracula 3D



Annar merkilegur gestur kvikmyndahátíðarinnar í ár er ítalski leikstjórinn Dario Argento. Hann mætir með nýjustu mynd sína Dracula 3D, sem er kannski ekki beint toppurinn á ferli hans, en sannarlega nógu forvitnileg til þess að kíkja á. Myndin ku ekki vera bein aðlögun af sögu Bram Stokers, heldur aðeins nota nokkur grunnatriði hennar. Svo leikur Rutger Hauer  Dr. Van Helsing. Í þrívídd. Hvernig getur það klikkað? Hefur RIFF annars áður verið með þrívíddarmynd? Man ekki eftir því…

Annars er það nú þannig að bestu minningarnar frá RIFF eru oft af myndum sem maður fer á alveg blindandi þannig að ég ætla ekki að kryfja prógrammið frekar. Það er stundum gott að láta koma sér á óvart. Hvaða myndir hlakka lesendur mest til að sjá?

Stikk: