Kvikmyndasýningarnar af filmu í Reykjavík hafa formlega verið lagðar niður, amk. í bili, þar sem Bíó Paradís á Hverfisgötu, sem hingað til hefur sýnt bíómyndir af filmum, hefur tekið í notkun stafrænan sýningarbúnað. Einnig hefur verið settur upp nýr hljóðbúnaðar.
„35 mm filman hefur verið það sýningarform kvikmynda síðan reglulegar sýningar hófust á kvikmyndum fyrir þarsíðustu aldamót. Árið 2013 hefur filmuframleiðsla í hinum vestræna heimi stöðvast, og áætlað er að Afríka verði síðasta álfan til að stafrænvæðast árið 2017. Þar sem þróunin hefur verið hröð, og stafrænn sýningarbúnaður afar dýr, hefur fjöldinn allur af kvikmyndahúsum neyðst til að leggja upp laupana á síðustu árum. Bíó Paradís horfði fram á það að stafrænvæðast eða hætta rekstri á síðasta ári – og nú ári síðar – með aðstoð MEDIA áætlunar Evrópusambandsins og framlagi kvikmyndagerðarmanna úr kvikmyndasjóði, er sá draumur um að bjóða upp á listrænt bíó í Reykjavík í stafrænum gæðum, orðinn að veruleika,“ segir í tilkynningu frá Bíó Paradís.
Hrönn Sveinsdóttir framkvæmdastjóri bíósins segir í aðspurð í tilkynningunni, um það hvort að landsmenn fái nokkurn tímann aftur að njóta kvikmyndasýninga af filmunni í Bíó Paradís, að það sé hugsanlega langt í það. „Það verður huganlega langt í að við verðum með filmusýningu en við höldum í tvær filmuvélar og stefnum á að geta boðið upp á filmusýningar af meistaraverkum kvikmyndasögunnar í framtíðinni. Það verða sannkallaðar lúxussýningar.“