Warner Bros kvikmyndafyrirtækið hefur gefið út nýtt plakat fyrir mynd Catherine Hardwicke, Red Riding Hood, eða Rauðhetta. Myndin kemur í bíó þann 11. mars nk.
Myndin fjallar um Valerie, leikin af Amanda Seyfried, sem er ung og falleg kona, sem tveir menn bítast um. Hún er ástfangin af Peter, leikinn af Shiloh Fernandez, en foreldrar hennar hafa ákveðið að hún skuli giftast hinum vellauðuga Henry, sem leikinn er af Max Irons.
Valerie og Peter vilja vera saman, og gera áætlun um að flýja saman, en þá ber það til tíðinda að eldri systir Valerie er drepin af varúlfi sem heldur til í dimmum skóginum sem umlykur bæinn þeirra.
Í mörg ár hefur ríkt ákveðið vopnahlé við villidýrið, og bæjarbúar hafa fært dýrinu fórnir. En nú þegar tunglið er fullt, þá hefur úlfurinn fengið sér ábót, og krækt sér í einhverja manneskju til að borða.
Fólkið fyllist nú hefndarhug, og kallar á hinn fræga varúlfabana föður Solomon, sem leikinn er af Gary Oldman. En sagan tekur óvænta stefnu þegar hann segir fólkinu að úlfurinn gæti verið þeirrar náttúru að fara í mannslíki yfir daginn, en breytast í úlf á nóttunni, og gæti því verið einn af bæjarbúum.
Eftir því sem fleiri og fleiri hverfa, á hverju fullu tungli, fer Valerie að gruna að úlfurinn gæti verið einhver af ástvinum hennar. Nú grípur um sig ofsahræðsla í bænum, þegar Valerie uppgötvar að hún á í einstæðu sambandi við skepnuna – sem laðar þau hvort að öðru, og gerir hana bæði grunaða, og að agni.