Nýlega sögðum við frá því að búið væri að ráða Óskarsverðlaunahafann Michael Arndt til að skrifa handrit að næstu Star Wars mynd, þeirri sjöundu í röðinni, en sem kunnugt er keypti Disney Lucasfilm nú í haust og þar með réttinn að Star Wars.
Fréttasíðan The Hollywood Reporter fullyrðir nú að búið sé að skrifa undir samning við handritshöfundana Lawrence Kasdan og Simon Kinberg um að skrifa sitthvort handritið, þ.e. Kasdan skrifi Star Wars 8 og Kinberg Star Wars 9.
Kasdan er enginn nýgræðingur þegar kemur að Stjörnustríðsskrifum, en hann var á meðal handritshöfunda að bæði The Empire Strikes Back og Return of the Jedi. Kinberg hefur skrifað Sherlock Holmes og Mr. & Mrs. Smith, m.a.
Þeir Kasdan og Kinberg hafa enn nægan tíma til að skrifa, því líklega verður mynd númer 8 ekki sýnd fyrr en árið 2017, en frumsýning Star Wars 7 er áætluð árið 2015.