Þegar leikarinn Peter Dinklage er ekki upptekinn við að gefa drekadrottningum góð ráð eða hella í sig áfengum miði, í hlutverki Tyrion Lannister í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones, þá rannsakar hann glæpi sem eiga sér stað í framtíðinni. Þetta má sjá í nýjum vísindatrylli, Rememory, þar sem Dinklage fer með aðalhlutverkið, en fyrsta stikla úr myndinni var að koma út.
Kvikmyndin minnir í fljótu bragði á myndir eins og Minority Report og Memento, en Dinklage fer með hlutverk einkaspæjarans Sam Bloom, sem er ráðinn til að rannsaka morð á manni sem fann upp minnis-upptökutæki.
Eins og gefur að skilja getur slíkt tæki komið að góðum notum í morðrannsókn, en aukaverkanirnar taka sinn toll af Dinklage, og ekki er allt sem sýnist.
Aðrir helstu leikarar eru Julia Ormond, Martin Donovan og Anton Yelchin heitinn, en þetta var eitt af hans síðustu hlutverkum áður en hann lést með sviplegum hætti á síðasta ári, aðeins 27 ára að aldri.
Leikstjóri er Mark Palansky. Rememory kemur ókeypis á Google Play Movie og Google Play TV streymisþjónustuna í fjölda landa, þar á meðal Íslandi, þann 24. ágúst nk. og verður aðgengileg til 20. september.
Kvikmyndin fer svo í bíó frá og með 8. september í Bandaríkjunum.
Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: