Virkilega? Þó þetta er ekki jafn örvæntingafullt verkefni og Battleship er ég enn gáttaður að stórlöxum í Hollywood hafi dottið þetta í hug árið 2009: kvikmynd byggð á tölvuleik sem var spilaður í spilasölum á níunda áratugnum þar sem markmiðið var að láta risastórar ófreskjur keppast um að rústa byggingum og verjast gegn herþyrlum. Ég verð þó að viðurkenna grunnhugmynd sögunnar hljómar ansi vel: miðaldra maður, eldri maður og ung stúlka umbreytast í skrímslin og etja kappi í gjöreyðingu stórborga, en ég er samt ansi gáttaður að réttindin voru keypt árið 2009 fyrir 33 milljónir dollara. Nú hefur verkefnið náð fótfestu og hefst framleiðsluferli myndarinnar.
Það allra furðulegasta er að mikill áhugi áhorfenda er fyrir efninu. Það sást klárlega árið 2007 þegar Rampage var eitt það fyrsta sem fólk hélt að myndin Cloverfield væri þegar kitla myndarinnar kom út. Ég vona innilega að þeir reyni ekki að gera Rampage alvarlega eins og Cloverfield þar sem hún myndi virka best sem kjánaleg grínmynd miðað við efni leiksins. Fólk frá níunda áratugnum virðist engu efni þaðan gleyma.
Stórframleiðandinn John Rickard sér um verkefnið en hann vinnur einnig þessa daganna að væntanlegu kvikmynd Bryan Singers, Jack The Giant Killer. Hann mun á næstunni hitta handritshöfunda myndarinnar og ræða söguþráðinn. Framleiðslufyrirtækið New Line Cinema segja að myndin verði vönduð en ódýrari framleiðsla líkt myndum á borð við Independence Day og Ghostbusters, en ekki rándýr stórmynd eins og margir hefðu ímyndað sér.
Sérstakt en hljómar þó ansi vel, ekki satt? Hvern langar ekki að sjá risavaxnar górillu, eðlu og varúlf leggja byggingar í rúst? Allavega er engin Uwe Boll í leikstjórasætinu að þessu sinni.