Prinsessa fólksins fundin

Ástralska leikkonan Elizabeth Debicki hefur gengið frá samningi um að leika Díönu prinsessu í 5. og 6. þáttaröðinni af sjónvarpsþáttunum The Crown. Þættirnir eru með þeim vinsælustu á Netflix síðan þeir komu fyrst út árið 2016 og fjalla um líf Elísa­bet­ar Eng­lands­drottn­ing­ar og fjöl­skyldu henn­ar.

Díana, sem lengi var kölluð prinsessa fólksins, giftist Karli Bretaprins árið 1981 en þau skildu árið 1996. Díana lést í bílslysi í París þann 31. ágúst 1997.

Mikil spenna hefur ríkt um hver myndi hreppa hlutverk Díönu. Debicki hefur áður sýnt eftirminnilega takta í kvikmyndum á borð við The Great Gatsby, Everest eftir Baltasar Kormák, The Man from U.N.C.L.E., Widows, Guardians of the Galaxy: Vol. 2 og spennuþáttaröðinni The Night Manager. Þá fer hún jafnframt með hlutverk í nýrri mynd Christopher Nolan, Tenet.

Þau Imelda Staunton og Jonathan Pryce munu leika Elísabetu drottningu og Filippus, eiginmann hennar. Búist er við að fimmta þáttaröð The Crown verði frumsýnd árið 2022 og sú sjötta og síðasta árið 2023.