Sjónvarpsserían Pressa III er tilnefnd til evrópsku sjónvarpsverðlaunanna Prix Europa 2013 sem besta evrópska dramaserían. Er þetta í fyrsta sinn sem íslensk sjónvarpssería er tilnefnd til þessara virtu verðlauna, að því er fram kemur í tilkynningu frá Sagafilm. Verðlaunahátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 1987 og verðlaunar það besta í ljósvakamiðlum Evrópu
Í ár bárust dómnefnd Prix Europa rúmlega 670 innsendingar frá 35 löndum í Evrópu. Það er því mikill heiður að Pressa III hafi hlotið tilnefningu að sögn Kjartans Þórs Þórðarsonar, forstjóra Sagafilm.
“Tilnefning sem þessi hefur gríðarlega mikla þýðingu, ekki bara fyrir Sagafilm heldur fyrir alla framleiðslu á leiknu íslensku sjónvarpsefni. Þetta sýnir að íslenskt leikið sjónvarpsefni á vel upp á pallborðið í hinum stóra heimi og eru framleiðslugæðin á pari við það sem gengur og gerist í löndunum sem við berum okkur saman við,” segir Kjartan í tilkynningu Sagafilm.
Pressa III var framleidd af Sagafilm og frumsýnd á Stöð 2 haustið 2012. Serían var tilnefnd til 10 Edduverðlauna árið 2013 og hlaut verðlaun í flokknum Leikið sjónvarpsefni ársins. Þá fékk aðalleikkonan Sara Dögg Ásgeirsdóttir verðlaun fyrir bestu frammistöðu leikkonu í aðalhlutverki.
Pressu III var leikstýrt af Óskari Jónassyni sem skrifaði jafnframt handritið ásamt Jóhanni Ævari Grímssyni, Margréti Örnólfsdóttur og Sigurjóni Kjartanssyni.